Helstu aðgerðir
Við ófrjósemisaðgerðir hjá körlum eru gerðir litlir skurðir á pung, sáðrásin tekin í sundur beggja vegna og hnýtt eða brennt fyrir endana. Við þetta geta sáðfrumurnar ekki borist frá eistunum, þar sem þær myndast, inn í sáðvökvann sem inniheldur engar slíkar frumur eftir aðgerðina og er því “steríll”.
Aðgerðin er hugsuð sem getnaðarvörn hjá mönnum sem ekki vilja eignast fleiri börn og er vitaskuld ákvörðun sem ber að taka að vandlega íhuguðu máli.
Aðgerðin er gerð annað hvort í staðdeyfingu eða stuttri svæfingu og tekur um það bil 20 mínútur í framkvæmd. Strax eftir aðgerðina er mönnum ráðlagt að fara heim í hvíld og rólegheit en geta byrjað að vinna skrifstofuvinnu daginn eftir. Ef um líkamlega þunga vinnu er að ræða er ráðlegast að bíða í 3-4 daga.
Vanalega eru menn með einhverja verki í pungnum í 5-7 daga eftir aðgerðina. Menn geta farið í sturtu daginn eftir en ættu að bíða með sund o.þ.h. þangað til sár eru gróin.
Þremur mánuðum eftir aðgerðina skila menn sæðisprufu til greiningar og er það gert til að athuga hvort sæðisvökvinn sé ekki örugglega án sæðisfrumna. Skurðlæknirinn hefur þá samband við sjúklinginn og gefur grænt ljós ef allt hefur heppnast vel. Fram að þeim tíma geta menn hins vegar ekki gert ráð fyrir að vera orðnir ófrjóir og verða því að nota getnaðarvarnir.
NánarAðgerðin er oftast framkvæmd í svæfingu og oft fær sjúklingur sýklalyf í tengslum við inngripið. Skurðlæknirinn speglar inn um þvagrás og upp í þvagleiðarann þar sem steinninn situr. Ef steinninn er ekki þeim mun stærri er hægt að bregða sérstakri körfu eða griplu um steininn, fanga hann og draga út. Oft þarf þó að brjóta steininn og er þá notaður leysigeisli. Oft er sérstök, grönn slanga skilin eftir inni í þvagleiðaranum, milli nýrans og blöðrunnar. Er hún sett til að tryggja afrennsli þvags frá nýranu og er alla jafna fjarlægð 7-10 dögum síðar. Í kjölfar þess þarf að framkvæma einhvers konar myndgreiningarrannsókn til eftirlits, yfirleitt 4-6 vikum eftir aðgerð, til að ganga úr skugga um að steinn sé horfinn og nýranu líði vel.
NánarAðgerðin er framkvæmd í svæfingu eða mænudeyfingu og er oft framkvæmd á sama tíma og blöðruhálskirtilsheflun.
Speglað er inn um þvagrás og inn í blöðru, steininn mulinn með sérstökum bor eða töng og mulningnum spúlað út. Þvagleggur er alla jafna skilinn eftir strax að aðgerð lokinni og oftast fjarlægður sama dag eða daginn eftir. Í kjölfar aðgerðar getur blætt um þvagrás og sjúklingur fundið fyrir ertingseinkennum með tíðum og bráðum þvaglátum ásamt sviða við þvaglát.
NánarAðgerðin er alla jafna framkvæmd í svæfingu. Skurðlæknirinn speglar inn í þvagblöðru með sérstökum áhöldum og “heflar” eða “skrapar” burtu æxlið. Æxlisspænirinn er síðan sendur í vefjagreiningu. Í kjölfarið er oftast settur þvagleggur sem fjarlægður er eftir aðgerðina, áður en sjúklingur fer heim. Algengustu fylgikvillarnir eru blæðingar um þvagrás en auk þess er algengt að sjúklingar kvarti undan tíðum og bráðum þvaglátum og mögulega sviða við þvaglát.
Niðurstöður vefjagreiningar liggja oftast fyrir 7-10 dögum eftir aðgerð.
NánarAðgerðin er framkvæmd þegaðar blöðruhálskirtill er stækkaður og veldur erfiðleikum við þvaglát, t.d. þvagtregðu, tíðum og bráðum þvaglátum eða þvagstoppi. Oft hafa sjúklingar verið meðhöndlaðir með lyfjum sem lina umrædd einkenni.
Aðgerðin er framkvæmd á sjúkrahúsi og oftast í svokallaðri mænudeyfingu. Þá sprautar svæfingarlæknir deyfilyfjablöndu inn í mænugöngin og dofnar þá neðri líkamshelmingurinn og sjúklingurinn finnur ekki til á meðan aðgerðin stendur yfir.
Skurðlæknirinn speglar inn í blöðruna með sérstökum speglunaráhöldum og “heflar” síðan eða “skrapar” síðan burtu vefjaspæni frá innra byrði blöðruhálskirtilsins og er vefjaspænirinn sendur í vefjagreiningu. Aðgerðin tekur alla jafna 1 klst og strax í kjölfar aðgerðarinnar fær sjúklingur þvaglegg sem oftast er hafður fram á næsta morgun en stundum lengur ef þörf er talin á.
Bráðir fylgikvillar aðgerðarinnar eru blæðingar frá þvagrás og sýkingar. Þá getur tekið nokkrar vikur fyrir þvaglát að komast í eðlileg horf eftir aðgerð og eru þvagleki, tíð og bráð þvaglát og sviði við þvaglát algeng einkenni. Til lengri tíma er algengt að sáðlát brenglist. Sáðvökvinn fer þá upp í blöðruna við sáðlát og í kjölfarið pissa menn því út og þvag getur því orðið gruggugt (retrograde ejaculation). Aðrir langtíma fylgikvillar eins og áreynsluþvagleki og stinningarvandamál þekkjast en eru sjaldgæf.
Í kjölfar útskriftar af sjúkrahúsi hittir skurðlæknir sjúklinginn eftir u.þ.b. 4-6 vikur. Þá er farið yfir ganginn eftir aðgerð og sjúklingi greint frá niðurstöðu vefjagreiningar.
NánarÞessi skurðaðgerð er alla jafna framkvæmd í svæfingu en í vissum tilvikum staðdeyfingu með eða án slævingar. Gerður er skurður á pung sem í lok aðgerðar er saumaður með þræði sem losnar og dettur úr af sjálfu sér á 3-4 vikum. Oft er svokallað dren skilið eftir og fer sjúklingur þá með það heim og er það þá fjarlægt nokkrum dögum síðar.
Strax að aðgerð lokinni er mönnum ráðlagt að fara heim í rólegheit og að forðast mikla líkamlega áreynslu næstu vikuna.
Verkir og bólga í pungnum er algeng í kjölfar aðgerðar fyrstu 10-14 dagana á eftir og gætu sjúklingar þá þurft að taka væg verkjalyf.
NB! Bólgni pungurinn skyndilega mikið upp fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina gæti þetta verið merki um blæðingu og er sjúklingi þá ráðlagt að leita á bráðamóttöku.
NánarVið blöðruspeglun er blöðruspeglunartæki (cystoscope) þrætt inn í þvagrás og upp í þvagblöðru og slímhúð þvagrásar og þvagblöðru skoðuð. Aðgerðin er oftast framkvæmd í staðdeyfingu þar sem staðdeyfigeli er sprautað upp í þvagrásina áður en rannsóknin hefst. Speglunin tekur oftast einungis örfáar mínútur í framkvæmd og eftir á getur sjúklingur fundið fyrir vægum óþægindum við þvaglát og/eða séð rauðlitað þvag í 1-2 sólarhringa.
Blöðruspeglun gefur góðar upplýsingar um innra byrði þvagblöðrunnar, þ.e. hvort þar leynist t.d æxli, bólgur eða steinar.
NánarÞessi aðgerð er ýmist framkvæmd í staðdeyfingu (með eða án slævingar) eða svæfingu. Gerðir eru litlir skurðir á punginn báðum megin og sáðrás þar klippt í sundur, vefjabútur skorinn burtu og sendur í vefjagreiningu. Sáðrásarendar eru brenndir og hnýttir og sárin síðan saumuð með þræði sem losnar og dettur úr af sjálfu sér. Strax að aðgerð lokinni er mönnum ráðlagt að fara heim og halda kyrru fyrir í rólegheitum þangað til daginn eftir. Þá geta menn – ef allt hefur gengið vel – mætt til vinnu ef um er að ræða kyrrsetuvinnu. Forðast skal mikla líkamlega áreynslu fyrstu 7 dagana á eftir. Verkir í pungnum eru algengir fyrstu vikuna eða svo og því skynsamlegt að eiga væg verkjalyf, t.d. panodil. Sturta er leyfileg daginn eftir aðgerð en sund, heita pottar o.s.frv. ætti að forðast þangað til sár eru vel gróin.
NB! Bólgni pungurinn skyndilega mikið upp fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerðina gæti verið um blæðingu að ræða og er mönnum þá ráðlagt að fara á bráðamóttöku til skoðunar.
NánarUmskurður (cirkumcision) er ýmist framkvæmdur í staðdeyfingu (með/án slævingar) eða í svæfingu. Limurinn er deyfður með staðdeyfilyfi og síðan framkvæmdur hringlaga skurður, nálægt brún kóngsins (glans penis) og forhúð fjarlægð. Eftir á er kóngurinn berskjaldaður og hinn hringlaga skurður saumaður saman með þræði sem losnar og dettur úr af sjálfu sér (3-4 vikur). Umbúðir eru settar á í lok aðgerðar og sjúklingur fjarlægir síðan þær umbúðir varlega daginn eftir. Þá er leyfilegt að fara í sturtu en ekki bað, heitan pott eða sund fyrr en sár eru vel gróin og saumar farnir. Bíða á með kynlíf í 6 vikur eftir aðgerð.
Vanalegt er að menn hafi verki og bólgur í limnum fyrstu 10-14 dagana eftir aðgerð og gætu þurft verkjalyf á því tímabili.
NB! Bólgni limurinn mikið upp fyrstu klukkutímana eftir aðgerð og vætli blóð milli sauma gæti verið um að ræða bráða blæðingu í kjölfar aðgerðar og ætti sjúklingur því að leyta á bráðamóttöku til mats og skoðunar.
NánarÞessi rannsókn er framkvæmd ef grunsemdir vakna um krabbamein í blöðruhálskirtli, annað hvort vegna hækkaðs PSA gildis í blóði eða að þreifing á kirtlinum veki grunsemdir.
Oftast er aðgerðin framkvæmd í staðdeyfingu þar sem ómtæki er komið fyrir í endaþarmi, staðdeyfing lögð og síðan tekin 8-12 stungusýni frá kirtlinum. Í tengslum við aðgerðina þarf sjúklingur að taka sýklalyf til að fyrirbyggja sýkingar vegna inngripsins.
Niðurstaða sýnatökunnar liggur alla jafna fyrir u.þ.b. 10 dögum síðar.
NB! Fái sjúklingur í kjölfar sýnatöku háan hita og hroll gæti verið á ferðinni sýking af völdum inngripsins og þarf viðkomandi einstaklingur þá að fara á bráðamóttöku og gæti jafnvel þurft sýklalyf í æð.
Nánar