Algengir sjúkdómar

Síendurteknar bakteríusýkingar í þvagblöðru er nokkuð algengt vandamál hjá konum. Einkenni blöðrubólgu eru óþægindi við þvaglát, t.d. sviði í þvagrás en einnig tíð og bráð þvaglát. Þá getur þvag verið illa lyktandi og gruggugt. Þvagfærasýking er greind með þvagprufu. Sjúklingur verður sér úti um þvagprufuglas í apóteki og skilar svokölluðu miðbunuþvagi á rannsóknarstofu eftir að læknir hefur lagt þar inn beiðni. Gert er strimilpróf, sýnið skoðað í smásjá og síðan ræktað ef þurfa þykir. Vaxi bakteríur í sýninu er svo gert svokallað næmispróf þar sem athugað er hvaða sýklalyf virki.

 

Áhættuþættir

Kynlíf eykur líkurnar á þvagfærasýkingum. Þvagrás kvenna er stutt og við samfarir geta bakteríur borist frá leggöngum og spöng – þar sem þær eru í ríkum mæli – inn í þvagblöðruna og valdið þar sýkingum. Notkun hettu og sæðisdrepandi krema getur breytt örveruflóru legganganna þannig að illskeyttari bakteríur vaxi þar og dafni og það sama getur gerst eftir tíðahvörf.

 

Rannsóknir og uppvinnsla

Yfirleitt er ekki þörf á ýtarlegum rannsóknum hjá þeim konum sem þjást af þessu vandamáli. Ef nýleg þvagprufa liggur ekki fyrir er slík rannsókn fengin og að auki er gengið úr skugga um að sjúklingurinn tæmi blöðru á fullnægjandi hátt með svokallaðri blöðruómskoðun þar sem þvagafgangur (restþvag) er mældur. Undir vissum kringumstæðum getur einnig verið ástæða til svokallaðrar blöðruspeglunar og jafnvel myndgreiningarannsókna af nýrum (ómskoðun eða tölvusneiðmynd).

 

Meðferð

Besta meðferðin felst í því að fyrirbyggja sýkingar. Þetta getur falist í almennum ráðleggingum – t.d. um að tæma blöðru alltaf eftir samfarir – eða að notuð séu lyf til að minnka líkurnar á sýkingum. Þar kemur til greina að konur taki 1 sýklalyfjatöflu í tengslum við kynlíf eða fari á lengri, fyrirbyggjandi sýklalyfjakúra (2-3 mánuðir) með 1 töflu á dag. Hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf ætti að íhuga staðbundna estrógenmeðferð. Þá getur það verið góður valkostur að eiga pakka af sýklalyfjum uppi í skáp sem hægt er að grípa til ef sjúklingur finnur fyrir kunnuglegum einkennum blöðrubólgu. Að hefja sýklalyfjameðferð snemma getur hjálpað mikið, stytt sýkingartímann og minnkað óþægindin.

 

Á að skila þvagprufu eftir að sýklalyfjakúr lýkur?

Yfirleitt er ekki þörf á því. Ef einkennin ganga til baka og sjúklingur verður frískur þarf þess ekki.

 

 

Nánar

Þvagleki á sér stað þegar einstaklingurinn nær ekki að halda í sér þvagi. Vandamálið er algengt og veldur oft mikilli vanlíðan og óþægindum.

Þvagleki er gjarnan flokkaður í nokkrar mismunandi tegundir:

Áreynsluleki. Sjúklingur missir þvag við áreynslu, t.d. hósta eða hnerra, þegar hann hoppar eða hleypur. Við þetta eykst þrýstingur á blöðruna og þvag lekur út. Vandmálið verður þegar stuðningur vöðva og liðbanda grindarbotnins við blöðruna minnkar eða brestur en slíkt getur gerst t.d. í kjölfar barnsburðar eða aðgerða í grindarholi, t.d. brottnáms blöðruhálskirtils. Langvinn veikindi, ofþyngd og reykingar geta gert illt verra.

Bráðaþvagleki. Einstaklingurinn upplifir skyndilega, mikla þvaglátaþörf og nær ekki á salerni áður en blaðran tæmir sig. Þvaglát verða gjarnan tíðari en ella, bæði að degi en einnig að næturlagi þar sem þau trufla gjarna nætursvefn. Einfaldar orsakir, t.d. þvagfærasýkingar geta legið að baki en stundum er um að ræða flóknari og alvarlegri orsakir eins og t.d. taugasjúkdóma eða krabbamein.

Yfirflæðisþvagleki. Hér er á ferðinni blöðrutæmingarvandamál. Blaðran tæmist ekki sem skyldi, offyllist og „flæðir yfir bakka sína“. Orsakirnar eru einkum langvinn þvagteppa vegna blöðruhálskirtilsstækkunar eða blöðrulömunar/-slappleika vegna t.d. sykursýki eða lyfja. Þvagleki þessi verður oftar en ekki að næturlagi.

Þvagleki tengdur skertri almennri getu. Á sér stað þegar almenn líkamleg eða andleg geta einstaklingsins er skert. Þetta gerist við tímabundin eða langvinn veikindi, t.d. giktarsjúkdóma þar sem hreyfigeta sjúklingsins er skert og hann/hún nær ekki á salerni í tæka tíð.

Blandaður þvagleki. Þar sem tvær eða fleiri tegundir þvagleka blandast saman.

Rannsóknir og uppvinnsla

Læknir tekur ýtarlega sjúkrasögu og leggur jafnvel fyrir sjúklinga spurningalista sem miða að því að greina eðli og orsakir þvaglekans. Þá er einstalingurinn gjarnan látinn fylla út í svokallaða þvaglátaskrá þar sem skráð er þvaglosun (tímasetningar og þvagmagn), vökvainntaka – en einnig hvenær og undir hvaða kringumstæðum þvagleki á sér stað. Líkamsskoðun beinist einkum að þvagblöðrunni. Þvagflæði er mælt og þvagafgangur (restþvag) sömuleiðis til að meta blöðrutæmingu.

Sjúklingur er síðan oftast beðinn um að skila þvagprufu þar sem skoðað er hvort sýking sé til staðar eða hvort blóð eða sykur mælist í þvagi. Þá er oft framkvæmd blöðruspeglun þar sem speglunartæki er þrætt inn í þvagblöðruna og slímhúð hennar skoðuð.

Meðferð

Ýmiss ráð eru til fyrirbyggja þvagleka. Í því samhengi má minnast á megrun og grindarbotnsæfingar en einnig er fólki ráðlagt að forðast blöðruertandi drykki eða fæðu eins og t.d. kaffi, te, áfengi og súra drykki/fæðu.

Meðferðin veltur síðan á því hvers konar tegund þvagleka ræður ríkjum.

Ef um er að ræða hreinan áreynsluþvagleka eru grindarbotnsæfingar ráðlagðar í fyrstu. Dugi þær ekki koma skurðaðgerðir til greina, t.d. svokölluð blöðruupphenging.

Bráðaþvagleki er meðhöndlaður með blöðruþjálfun þar sem sjúklingurinn er beðinn um að reyna að halda í sér og hemja þvagblöðruna en lyf, svokölluð blöðrudempandi lyf, koma þar einnig til greina.

Þvagleki vegna skertrar almennrar getu miðar vitaskuld að því að bæta úr almennri færni sjúklings en bætt salernisaðstaða er sömuleiðis mikilvæg. Þá geta bleijur og jafnvel langvarandi þvagleggir í sumum tilvikum komið til greina.

Þegar um blandaðan þvagleka er að ræða þarf oft fjölþætta nálgun en gjarnan er byrjað á að ráðast á þann þátt sem ríkjandi er.

 

Nánar

Sístaða lims verður þegar holdris varir í margar klukkustundir, ýmist löngu eftir að örvun á sér stað eða alveg ótengt slíkri örvun. Vandamálið er brátt og þarfnast skjótrar úrlausnar þar sem annars er hætta á viðvarandi skemmdum á stinningarvef limsins. Ættu slíkir sjúklingar því að leita á bráðamóttöku.

 

Nánar

Peyronie´s sjúkdómur er kvilli sem leggst á getnarliminn og getur valdið bognun hans. Örvefsskellur myndast í bandvefsslíðrinu sem umlykur stinningarhólf limsins og geta valdið staðbundnum samdrætti og þarafleiðandi bognun limsins. Ástæður þessa eru ókunnar en einhvers konar áverki á liminn er gjarnan nefndur til sögunnar jafnvel þótt menn muni sjaldnast eftir slíku.

Ekki er alltaf þörf á að grípa til meðferðar við Peyronie´s. Stundum lagast ástandið af sjálfu sér og trufli sjúkdómurinn ekki kynlíf er meðferð ekki nauðsynleg. Í vissum tilvikum er bognunin þó það mikil að hún truflar samlíf og þarf þá að grípa til meðhöndlunar.

Í dag er einkum tvenns konar meðferð í boði. Annars vegar sprautumeðferð þar sem svokölluðum kollagenasa (Xiapex) er sprautað í örvefsskellurnar. Kollagenasinn brýtur þær niður og mýkir og við það getur bognunin minnkað. Hins vegar er um að ræða skurðaðgerð þar sem bognunin er leiðrétt með því að setja sauma í skaft limsins á mótstæðu hliðinni. Við þetta réttist limurinn en styttist þó einnig yfirleitt líka. Aðgerðin er alla jafna framkvæmd á læknastofum, oftast í staðdeyfingu eða stuttri svæfingu.

Nánar

Þegar stinning getnaðarlims er skert þannig að það hamli mönnum í kynlífi er talað um risvandamál. Slík vandamál eru nokkuð algeng, sumar rannsóknir hafa m.a.s. bent til að u.þ.b. 50% af karlmönnum eldri en 40 ára glími við þau að einhverju leyti.

Orsakir slíkra vandamála geta verið ýmiss konar en er í grófum dráttum skipt í 4 flokka:

1. Vegna hormónatruflana. Skortur á karlhormóninu, testósteróni, getur leitt af sér minnkaða stinningu og getur lækningin því falist í því að sjúklingi sé bættur upp þessi skortur með testósterón-sprautum eða geli.

2. Af sálrænum toga. Þetta á einkum við ef sjúklingur er ungur, morgunris er með eðlilegum hætti og stinningin sveiflukennd. Oft er hræðsla við slælega frammistöðu hluti vandans. Kynlífsráðgjöf er meginuppistaða meðferðar en tímabundin notkun stinningarlyfja getur mögulega brotið upp vítahring og hjálpað til.

3. Vegna truflana í taugakerfi. Taugasjúkdómar eins og t.d. MS en einnig skurðaðgerðir í grindarholi sem hafa í för með sér skemmdir á taugum geta orsakað risvandamál. Við langvinna sykursýki geta úttaugar skemmst og valdið skertri stinningu og þá eiga mænuskaðaðir oftast við slík vandamál að etja.

4. Vegna truflana í æðakerfi. Hér er ýmist um að ræða skert blóðflæði til getnaðarlims t.d. vegna þrenginga í slagæðum (t.d. vegna æðakölkunar) eða svokallaðs bláæðaleka þar sem of hraður leki blóðs úr limnum hamlar stinningu.

Þá geta ýmiss konar lyf haft áhrif sem og óhófleg neysla áfengis eða tóbaks.

Uppvinnsla sjúklinga og rannsóknir

Miklu máli skiptir að fá greinargóða lýsingu á eðli vandmálsins. Er löngun til kynlífs til staðar? Hvernig er sambandið við makann? Er morgunstinning eðlileg? Hvernig er neysla áfengis eða annarra vímugjafa? Eða reykingar? Hvaða lyf notar viðkomandi?

Almenn líkamsskoðun er framkvæmd þar sem læknir skoðar sérstaklega eistu, blöðruhálskirtil og getnaðarlim sem og oftast eru teknar blóðprufur þar sem mælt er s-testósterón ásamt blóðsykri.

Meðferð

Almennar ráðleggingar til manna með stinningarvandamál geta falið í sér að taka á þeim áhættuþáttum sem til staðar eru – t.d. að hætta reykingum, grenna sig, minnka áfengisneyslu, með aukinni hreyfingu og bættum svefnvenjum og mataræði. Algengt er þó að sértækari meðferðarúrræðum sé einnig beitt.

Ef stinningarvandamál eru talin að rekja til testósterónskorts getur meðferð falist í því mönnum sé bættur upp sá skortur með testósteróngjöf. Er þá um að ræða að sjúklingur noti annað hvort testósteróngel sem smurt er daglega á húð eða að efninu sé sprautað í vöðva. Viðkomandi einstaklingur er síðan undir umsjá læknis sem stýrir gjöfinni í samræmi við blóðmælingar.

Stinningarlyf hafa gerbreytt allri meðferð risvandamála. Hér er um að ræða ýmist töflur eða lyf í sprautuformi sem eiga það sammerkt að auka blóðflæði til getnaðarlimsins og stuðla að bættri stinningu.

Algengast er að byrjað sé á töflum og hér á landi eru til 2 tegundir, annars vegar sildenafil sem virkar í u.þ.b. 10-12 tíma og hins vegar tadalafil (Cialis) sem virkar í allt að 36 tímum. Ekki má nota lyf þessi ásamt svokölluðum nítrötum (nitroglycerin, sprengitöflum) eða skyldum lyfjum né heldur ef einstaklingur glímir við alvarlegan hjartasjúkdóm.

Stinningarlyf í sprautuformi, svokölluð prostaglandíni (Caverject), er sprautað inn í getnaðarliminn þar sem það eykur blóðflæðið og framkallar stinningu. Er það gjarnan notað þegar stinningarlyf í töfluformi hafa ekki borið árangur.

Skurðaðgerðum vegna stinningarvandamála hefur með aukinni notkun stinningarlyfja fækkað mjög. Ef lyfjameðferð virkar ekki sem skyldi er stundum gripið til þess ráðs að  setja í getnaðarliminn svokölluð ígræði (prótesur) en þetta eru í raun hólkar sem hægt er að dæla í vatni til að ná fram fyllingu og þar með stinningu limsins.

 

Nánar

Samkvæmt krabbameinsskrá er blöðruhálskirtilskrabbamein algengasta krabbameinið hjá íslenskum körlum og um þriðjungur nýgreindra krabbameina á Íslandi.

Blöðruhálskirtillinn er staðsettur neðan við þvagblöðruna hjá körlum og hefur hlutverki að gegna við framleiðslu sæðisvökvans. Illkynja vöxtur krabbameinsins hefst í kirtlinum sjálfum en getur – ef það nær að þroskast nægjanlega lengi – farið að vaxa út fyrir hýði hans eða jafnvel dreifa úr sér til nærliggjandi eitla eða annarra líffæra.

Orsakir og áhættuþættir

Orsakaþættir eru ekki að fullu þekktir en greinleg tengsl eru við hækkandi aldur og jákvæða ættarsögu. Þá er grunur um að umhverfisþættir og lífsstíll komi við sögu – mikil neysla á mettuðum dýrafitum og mjólkurafurðum er talin auka líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini en neysla á t.d. tómötum, sojaafurðum og grænu tei gæti verið verndandi.

Einkenni

Í byrjun er meinið gjarnan einkennalaust en nái það að vaxa og þroskast geta einkenni komið fram. Staðbundin einkenni frá kirtlinum geta t.d. lýst sér í breytingum á þvaglátum, t.d. tregðu og slappri bunu en einnig tíðum og bráðum þvaglátum. Nái meinið að dreifa sér um aðra líkamshluta eru einkennin hins vegar oft almenns eðlis, t.d. minnkuð matarlyst, megrun, slappleiki, þreyta og úthaldsleysi en einnig verkir, t.d. í beinum.

Uppvinnsla og rannsóknir

Læknir ræðir við sjúkling, fær lýsingu á mögulegum einkennum og kannar ættarsögu. Að því búnu er sjúklingur skoðaður. Með endaþarmsþreifingu er leitað að hnútum eða herslum í kirtlinum og gjarnan er athugað hvort þvagflæði sé með eðlilegum hætti sem og blöðrutæming. Þá pantar læknir sjúklings blóðprufur þar sem mælt er svokallað PSA (Prostate Specific Antigen) en þetta er efni sem myndast í frumum kirtilsins og losnar út í blóðrásina. Hækkun á gildi þessu getur gefið til kynna meinsemd í kirtlinum en getur þó einnig hækkað af öðrum ástæðum.

Vakni grunur um illkynja meinsemd í blöðruhálskirtli er oftast mælt með vefjasýnatöku frá kirtlinum. Ómstauti er komið fyrir í endaþarmi, staðdeyft og síðan tekin á bilinu 8-12 stungusýni. Liggur vefjagreining oftast fyrir u.þ.b. 7-10 dögum síðar.

Leiði vefjaniðurstöður í ljós að um krabbamein sé að ræða eru gjarnan pantaðar myndgreiningarrannsóknir. Er þar um að ræða annars vegar tölvusneiðmynd af brjóst- og kviðarholi og hins vegar svonefnt beinaskann þar sem skimað er eftir fjarmeinvörpum.

Meðferð

Meðferð blöðruhálskirtilskrabbameins veltur mjög á stigi og alvarleika sjúkdómsins. Er þá átt við annars vegar hversu árásargjarnar sjálfar krabbameinsfrumurnar virðast vera – þar sem svokölluð Gleason gráða er notuð – og hins vegar hvort sjúkdómurinn sé vaxinn út fyrir hýði kirtilsins og/eða farinn að dreifa sér til annarra hluta líkamans.

Sé sjúkdómurinn staðbundinn – þ.e. bundinn við blöðruhálskirtilinn og ekki farinn að dreifa úr sér til fjarlægra hluta líkamans – er markmið meðferðarinnar að lækna sjúklinginn af meinsemdinni. Hér er í grundvallaratriðum um þrenns konar nálgun að ræða:

1. Virkt eftirlit. Finnist krabbameinið einungis í litlu magni í þeim sýnum sem tekin hafa verið og sé vefjagráðan hagstæð kemur þessi nálgun til greina. Er þá beðið með eiginlega meðferð en í staðinn fylgst náið með sjúklingi. Læknir sjúklings skoðar hann með reglulegu millibili, þreifar á blöðruhálskirtli, endurtekur blóðprufur, sýnatökur úr kirtlinum og/eða myndgreiningarrannsóknir. Sé sjúkdómurinn stöðugur heldur eftirlitið áfram með sama hætti en sé útlit fyrir að krabbameininu vaxi ásmegin breytast plönin og virk meðferð (sjá neðan) er skipulögð.

2. Skurðaðgerð. Hér er skurðaðgerð beitt til að fjarlægja kirtilinn í heild sinni ásamt sáðblöðrum. Hér á landi er beitt svokölluðum aðgerðarþjarka eða róbot sem gerir skurðlækninum kleift að nema á brott kirtillinn með kviðarholsspeglun þar sem gerð eru nokkur lítil göt á kviðarholið. Sjúklingar útskrifast af sjúkrahúsi degi eftir aðgerð og eru hafðir með þvaglegg í u.þ.b. 1 viku. Alvarlegir fylgikvillar svo sem blæðingar, sýkingar og þvagleki eru sjaldgæfir en skert holdris í kjölfar aðgerðar algengara.

3. Geislameðferð. Tvenns konar nálgun kemur til greina: 1) Ytri geislameðferð sem er algengari nálgun. Hér er jónandi geislum beint að kirtlinum að utan og inn á við. 2) Innri geislameðferð þar sem geislavirkum kornum er komið fyrir innan kirtilsins með ómstýrðri tækni af mikilli nákvæmni. Hvort sem um ræðir er markmiðið að drepa krabbameinsfrumurnar með geislunum og lækna sjúklinginn.

Í öllum ofangreindum tilvikum þarf sjúklingur að vera í eftirliti hjá sínum lækni í kjölfar meðferðar. Eftirlitið felst einkum og sér í lagi í endurteknum blóðprufum, PSA mælingum – þar sem skimað er fyrir mögulegri endurkomu krabbameinsins – en einnig í meðferð eða ráðleggingum við þeim fylgikvillum sem mögulega geta komið upp á.

Sé um að ræða dreifðan sjúkdóm, þ.e.a.s. krabbamein með meinvörpum í fjarlægum líkamshlutum er unnt að halda sjúkdóminum í skefjum. Grunnmeðferðin byggir á því að minnka magn karlhormónsins testósteróns í blóðinu – svokölluð hormónahvarfsmeðferð – annað hvort með hormónasprautum eða með lítilli skurðaðgerð þar sem eistun eru fjarlægð. Reynist þessi meðferð ekki duga kemur til greina notkun krabbameinslyfja og/eða nýrra hormónalyfja sem komið hafa fram í dagsljósið á undanförnum árum og reynast oft vel.

 

 

 

Nánar

Krabbamein í eistum er algengasta krabbameinið hjá karlmönnum á aldrinum 25-45 ára hér á landi. Þrátt fyrir það er krabbamein í eistum sjaldgæft, eða um ca 1% allra illkynja æxla hjá karlmönnum.

Aukin áhætta er fyrir hendi hjá þeim mönnum þar sem eistað hefur ekki gengið niður í punginn með eðlilegum hætti í fósturlífi. Fjölskyldusaga um eistnakrabbamein hjá nákomnum ættingja (föður eða bróður) er einnig áhættuþáttur sem og meðfæddar vanskapanir á kynfærum.

Eistnakrabbamein veldur oftast engum sérstökum einkennum. Algengast er að meinið uppgötvist við það að menn þreifi hnút eða fyrirferð í öðru eistanu. Þó geta sjúklingar haft verki eða þyngsli/seiðing í eista.

Vakni grunur hjá mönnum um krabbamein í eista ber að leita læknis. Læknisskoðun er þá framkvæmd með þreifingu og síðan ómskoðun af eistanu. Staðfesti ómskoðunin grun um að eistnakrabbamein sé til staðar er sjúklingurinn þar að auki sendur í blóðprufur þar sem mældir eru svokallaðir æxlisvísar (alfafetoprótín, AFP og beta-HCG) auk þess sem framkvæmd er tölvusneiðmyndataka af lungum og kvið til að skima eftir mögulegum meinvörpum.

Meðferð á eistnakrabbameini felur alltaf í sér að fjarlægja eistað. Gerður er skurður í nára og í gegnum hann er hið sjúka eista fjarlægt. Í sömu aðgerð er hægt að setja gervieista óski menn eftir því. Ef meinið er staðbundið og séu engir sérstakir áhættuþættir til staðar dugar þessi skurðaðgerð oft ein og sér til lækningar. Sé meinið hins vegar byrjað að dreifa sér um líkamann með meinvörpum eða ef ákveðnir áhættuþættir eru til staðar þarf þar að auki að gefa krabbameinslyfjameðferð. Sú krabbameinslyfjameðferð getur mögulega valdið ófrjósemi og undir þeim kringumstæðum því verið skynsamlegt að huga að því að frysta sæði áður en slík meðferð hefst. Undir öllum kringumstæðum þarf sjúklingur sem greinst hefur með eistnakrabbamein að vera í eftirliti hjá þvagfæralækni eða krabbameinslækni í a.m.k. 5 ár.

Horfur sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein í eista eru nú til dags góðar. Gerbylting varð í meðferð þessara einstaklinga þegar farið var að nota krabbameinslyfið cisplatin og í dag má telja að yfir 90% þessara sjúklinga læknist alveg af sjúkdómnum.

Nánar

Krabbamein í þvagvegum eru um 5% allra illkynja meina sem greinast á Íslandi. Oftast er um að ræða svokölluð þvagvegaþekjuæxli (transitional cell carcinoma) en fleiri vefjagerðir þekkjast einnig (kirtilfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein).

Þekktir áhættuþættir eru tóbaksreykingar og einnig vinna með ákveðin kemisk efni, t.d. ákveðin litarefni. Viss sníkjudýr (Schistosoma hematobium) eru einnig þekkt fyrir að auka áhættu á flöguþekjukrabbameini innan þvagvega þar sem þau eru landlæg (t.d. Egyptalandi) en sýkingar af þeirra völdum eru sem betur fer afar fátíðar hjá Íslendingum.

Einkennin eru oftast sársaukalaus blóðmiga, þ.e.a.s sjúklingurinn pissar blóði. Önnur einkenni geta þó verið ráðandi, eins og t.d. tíð og bráð þvaglát eða sviði við þvaglát. Þá geta krabbamein í þvagleiðara eða nýrnaskjóðu valdið verkjum og óþægindum sem minnt geta á verki af völdum nýrnasteina.

Vakni grunur um krabbamein í þvagblöðru er oftast framkvæmd svokölluð blöðruspeglun þar sem þvagfæraskurðlæknir þræðir speglunartæki inn í þvagrás í staðdeyfingu. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur í framkvæmd og fylgja henni einungis minni háttar óþægindi.

Yfirleitt skipuleggur viðkomandi læknir einnig einhvers konar myndgreiningarrannsókn, oftast svokallaða tölvusneiðmynd af þvagvegum.

Meðferð veltur mjög á staðsetningu meinsins. Ef um er að ræða krabbamein í þvagblöðru er gerð speglunaraðgerð þar sem krabbameinsæxlið er heflað burtu og vefjaspænirinn síðan sendur í vefjagreiningu. Framhaldið veltur síðan á niðurstöðu smásjárskoðunarinnar (vefjagreiningarinnar). Sitji meinið einungis í ysta lagi slímhúðarinnar nægir oft áðurnefnd heflunaraðgerð en sjúklingur þarf þá að gangast undir reglubundið eftirlit hjá þvagfæralækni. Sé krabbameinið á hinn bóginn vaxið niður í vöðvalag þvagblöðrunnar er sjúkdómurinn alvarlegri og þarf sjúklingur þá oftast að ganga undir stærri skurðaðgerð þar sem framkvæmt er brottnám á þvagblöðru og svokölluð þvaghjáveita.

Leiði myndgreiningarrannsóknir í ljós fjarmeinvörp í öðrum líffærum (t.d. lungum) er sjúkdómurinn ekki lengur læknanlegur en mögulega hægt að halda í skefjum með krabbameinslyfjameðferð.

Krabbamein í nýrnaskjóðu, þvagleiðurum eða þvagrás eru sjaldgæfari en þvagblöðrumein. Meðferð þeirra er oftast skurðaðgerð.

Horfur sjúklinga með krabbamein innan þvagvega velta mjög á staðsetningu og tegund krabbameinsins, hversu langt það er gengið og hvort það finnist fjarmeinvörp í öðrum líffærum.

Nánar

Gerður er greinarmunur á krabbameini í blöðruhálskirtli og góðkynja stækkun (Benign Prostatic Hyperplasia, BPH). Síðarnefnda fyrirbærið er ekki illkynja krabbamein, getur ekki dreift sér um líkamann og er afar sjaldan hættulegur mönnum. Orsakir BPH eru ekki að fullu kunnar en ljóst að hormónar, einkum karlkynshormónið (testosterón) skipta þar miklu máli. Blöðruhálskirtillinn stækkar og eykst að rúmmáli og getur á þann hátt þrengt að þvagrásinni og stíflað afrennsli frá þvagblöðrunni við þvaglát.

Með hækkandi aldri eykst tíðni BPH. Á aldrinum 50-60 ára er tíðni BPH u.þ.b. 50% og hjá mönnum yfir áttrætt er tíðnin um 80%.

 

Hver eru einkennin?

BPH er oft á tíðum einkennalaus en getur valdið þvaglátaeinkennum. Er slíkum einkennum jafnan skipt í 2 meginflokka þar sem annars vegar er um að ræða svokölluð tregðueinkenni (treg þvaglát með dræmri tæmingu, slappri buni og erfiðleikum við að hefja þvaglát) og hins vegar svokölluð ertingseinkenni (tíð og bráð þvaglát, bráðaþvagleki og næturþvaglát).

Í vissum tilvikum geta menn lent í algeru, bráðu þvagstoppi, koma ekki frá sér deigum þvagdropa með tilheyrandi óþægindum. Gerist slíkt þurfa menn að leita sér hjálpar og oftast þarf undir þessum kringumstæðum að setja upp svokallaðan þvaglegg en þá er grönn slanga þrædd inn um þvagrás í blöðruna og hún tæmd á þann hátt. Uppblásinn belgur á enda leggjarins tryggir að hann renni ekki út úr blöðrunni og er þessi slanga oft skilin eftir í nokkra daga. Einnig þekkist það að sjúklingum sé kennd svokölluð hrein aftöppun (HIK) en þá lærir sjúklingurinn að tappa af sér með einnota þvagleggjum sem í lok hverrar aftöppunar eru dregnir út og hent. Á þann hátt er tryggt að blaðran tæmist.

Langvinn, stigvaxandi þvagteppa veldur oft á tíðum lúmskari einkennum en nái slík þvagteppa að ganga langt getur hún haft í för með sér skerta nýrnastarfsemi og myndun steina innan þvagblöðru

 

Hvaða rannsóknir þarf að framkvæma?

Leiti sjúklingur til þvagfæralæknis með þvaglátavandamál er byrjað á að kryfja sjúkrasögu til mergjar, einkum til að hægt sé að átta sig á hvaða einkenni séu ráðandi. Til þess er oft beitt ákveðnum spurningalista sem sjúklingur svarar (IPSS) auk þess sem hann er gjarnan látinn fylla út í svokallaða þvaglátaskrá. Að lokinni sögutöku er einstaklingurinn skoðaður. Í því felst að þreifað er á blöðruhálskirtli, þvagflæði metið með sérstökum flæðismælum og þvagafgangur síðan mældur (það magn þvags sem eftir verður í blöðrunni að lokinni þvagtæmingu). Oft er einnig framkvæmd ómskoðun af kirtlinum en þá er ómstauti komið fyrir í endaþarmi sjúklings.

Að lokinni sögutöku og skoðun er sjúklingur alla jafna beðinn um að skila blóð- og þvagprufu. Í vissum tilvikum eru síðan framkvæmdar ýtarlegri rannsóknir eins og t.d. blöðruspeglun og blöðruþrýstingsmæling.

 

Hver er meðferðin?

Ekki þarf að meðhöndla alla menn með stækkaðan blöðruhálskirtil. Reynist þvagtæming vera ásættanleg og ef einkennin sem sjúklingur upplifir trufla hann ekki mikið í daglegum athöfnum er ekkert því til fyrirstöðu að bíða átekta og sjá til. Eru menn þá gjarnan í reglubundnu eftirliti hjá sínum lækni.

Stundum er þó æskilegt að hefja meðferð og verður þá lyfjameðferð oftast fyrir valinu til að byrja með. Algengast er að notuð séu tvö lyf, annars vegar svokallaðir alfablokkar (tamsulozin, alfuzosin) sem slaka á sléttum vöðvafrumum í blöðruhálskirtlinum og hins vegar 5-alfa-reduktasa hemlar (finasterid, dutasterid) sem gera það að verkum að kirtillinn minnkar að rúmmáli. Önnur lyf eru þó einnig stundum notuð, einkum ef ertingseinkenni ráða ríkjum, svokölluð blöðrudempandi lyf.

Ef lyf virka eða þolast ekki og einkenni eru til ama kemur til álita að framkvæma skurðaðgerð. Í vissum tilvikum eru aðgerðir skipulagðar án undanfarandi lyfjameðferðar, einkum ef um er að ræða sjúkling sem fengið hefur þvagteppu og settur hefur verið upp þvagleggur sem ekki hefur tekist að losna við.

Algengasta skurðaðgerðin er svokölluð heflunaraðgerð (TURP) en sú aðgerð er framkvæmd í mænudeyfingu, speglað er gegnum þvagrás og kirtilvefur „heflaður“ eða „fræstur“ í burtu. Við aðgerðina er losað um stífluna og þvaglát verða greiðari í kjölfarið. Sjúklingur dvelur alla jafna á sjúkrahúsi næturlangt og útskrifast oft með inniliggjandi þvaglegg sem dreginn er að nokkrum dögum liðnum.

Ef kirtillinn er mjög stór getur þó verið erfitt að framkvæma TURP og í þeim tilvikum getur þurft að gera opna skurðaðgerð. Þá eru svokallaðar laser-aðgerðir (HOLEP) að ryðja sér til rúms hér á landi þar sem hægt að er fjarlægja mun stærri kirtla með speglunartækni en ella.

Sé sjúklingum ekki treyst í aðgerð vegna t.d. alvarlegra sjúkdóma eru þeir stundum hafðir með inniliggjandi þvaglegg til langframa eða að þeir beiti hreinni aftöppun til frambúðar.

Nánar

Vandamál tengd nýrnasteinum eru algeng á Íslandi. Flestir nýrnasteinar myndast uppi í nýrunum sjálfum og geta borist þaðan niður í þvagleiðara. Einkennin geta verið sárir verkir í öðrum hvorum flankanum sem leiða oft aftur í bak eða niður í nára. Oft fylgir þessum verkjum ógleði og uppköst og stundum blóð í þvagi. Steinar sem liggja langt niðri í þvagleiðurum, nálægt þvagblöðrunni, geta auk verkja einnig valdið blöðrueinkennum, þ.e. tíðum og bráðum þvaglátum. Í vissum tilvikum eru nýrnasteinar einkennalausir og uppgötvast þá fyrir tilviljun.

Til að greina steina innan þvagvega þarf að framkvæma myndgreiningarrannsókn. Algengasta rannsóknin nú til dags er svokölluð tölvusneiðmynd (CT) af nýrum þar sem nær allir nýrnasteinar sjást.

Líkaminn losnar við flesta nýrnasteina af sjálfsdáðum en sumir þeirra festast þó og þarfnast sérstakrar meðferðar. Steinbrjóturinn Mjölnir er staðsettur á Landspítalanum og í honum er höggbylgjum miðað og skotið á steinana sem molna við höggin niður í smærri brot og skolast síðan út úr líkamanum. Ef meðferð í steinbrjótnum er ómöguleg frá byrjun eða árangurslaus er gripið til annnarra aðgerða. Séu steinar fastir í þvagleiðurum er reynt með speglunartækni að fjarlægja þá.

Greinist sjúklingur með nýrnastein er sá hinn sami í aukinni áhættu á því að það endurtaki sig. Í vissum tilvikum eru til staðar efnaskiptatruflanir sem hægt er að greina með viðeigandi rannsóknum og meðhöndla. Allir sjúklingar sem greinast með nýrnastein ættu því að hitta þvagfæraskurðlækni til viðtals og mögulegrar uppvinnslu á þessu vandamáli.

Nánar