Góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli (Benign Prostatic Hyperplasia, BPH)

Gerður er greinarmunur á krabbameini í blöðruhálskirtli og góðkynja stækkun (Benign Prostatic Hyperplasia, BPH). Síðarnefnda fyrirbærið er ekki illkynja krabbamein, getur ekki dreift sér um líkamann og er afar sjaldan hættulegur mönnum. Orsakir BPH eru ekki að fullu kunnar en ljóst að hormónar, einkum karlkynshormónið (testosterón) skipta þar miklu máli. Blöðruhálskirtillinn stækkar og eykst að rúmmáli og getur á þann hátt þrengt að þvagrásinni og stíflað afrennsli frá þvagblöðrunni við þvaglát.

Með hækkandi aldri eykst tíðni BPH. Á aldrinum 50-60 ára er tíðni BPH u.þ.b. 50% og hjá mönnum yfir áttrætt er tíðnin um 80%.

 

Hver eru einkennin?

BPH er oft á tíðum einkennalaus en getur valdið þvaglátaeinkennum. Er slíkum einkennum jafnan skipt í 2 meginflokka þar sem annars vegar er um að ræða svokölluð tregðueinkenni (treg þvaglát með dræmri tæmingu, slappri buni og erfiðleikum við að hefja þvaglát) og hins vegar svokölluð ertingseinkenni (tíð og bráð þvaglát, bráðaþvagleki og næturþvaglát).

Í vissum tilvikum geta menn lent í algeru, bráðu þvagstoppi, koma ekki frá sér deigum þvagdropa með tilheyrandi óþægindum. Gerist slíkt þurfa menn að leita sér hjálpar og oftast þarf undir þessum kringumstæðum að setja upp svokallaðan þvaglegg en þá er grönn slanga þrædd inn um þvagrás í blöðruna og hún tæmd á þann hátt. Uppblásinn belgur á enda leggjarins tryggir að hann renni ekki út úr blöðrunni og er þessi slanga oft skilin eftir í nokkra daga. Einnig þekkist það að sjúklingum sé kennd svokölluð hrein aftöppun (HIK) en þá lærir sjúklingurinn að tappa af sér með einnota þvagleggjum sem í lok hverrar aftöppunar eru dregnir út og hent. Á þann hátt er tryggt að blaðran tæmist.

Langvinn, stigvaxandi þvagteppa veldur oft á tíðum lúmskari einkennum en nái slík þvagteppa að ganga langt getur hún haft í för með sér skerta nýrnastarfsemi og myndun steina innan þvagblöðru

 

Hvaða rannsóknir þarf að framkvæma?

Leiti sjúklingur til þvagfæralæknis með þvaglátavandamál er byrjað á að kryfja sjúkrasögu til mergjar, einkum til að hægt sé að átta sig á hvaða einkenni séu ráðandi. Til þess er oft beitt ákveðnum spurningalista sem sjúklingur svarar (IPSS) auk þess sem hann er gjarnan látinn fylla út í svokallaða þvaglátaskrá. Að lokinni sögutöku er einstaklingurinn skoðaður. Í því felst að þreifað er á blöðruhálskirtli, þvagflæði metið með sérstökum flæðismælum og þvagafgangur síðan mældur (það magn þvags sem eftir verður í blöðrunni að lokinni þvagtæmingu). Oft er einnig framkvæmd ómskoðun af kirtlinum en þá er ómstauti komið fyrir í endaþarmi sjúklings.

Að lokinni sögutöku og skoðun er sjúklingur alla jafna beðinn um að skila blóð- og þvagprufu. Í vissum tilvikum eru síðan framkvæmdar ýtarlegri rannsóknir eins og t.d. blöðruspeglun og blöðruþrýstingsmæling.

 

Hver er meðferðin?

Ekki þarf að meðhöndla alla menn með stækkaðan blöðruhálskirtil. Reynist þvagtæming vera ásættanleg og ef einkennin sem sjúklingur upplifir trufla hann ekki mikið í daglegum athöfnum er ekkert því til fyrirstöðu að bíða átekta og sjá til. Eru menn þá gjarnan í reglubundnu eftirliti hjá sínum lækni.

Stundum er þó æskilegt að hefja meðferð og verður þá lyfjameðferð oftast fyrir valinu til að byrja með. Algengast er að notuð séu tvö lyf, annars vegar svokallaðir alfablokkar (tamsulozin, alfuzosin) sem slaka á sléttum vöðvafrumum í blöðruhálskirtlinum og hins vegar 5-alfa-reduktasa hemlar (finasterid, dutasterid) sem gera það að verkum að kirtillinn minnkar að rúmmáli. Önnur lyf eru þó einnig stundum notuð, einkum ef ertingseinkenni ráða ríkjum, svokölluð blöðrudempandi lyf.

Ef lyf virka eða þolast ekki og einkenni eru til ama kemur til álita að framkvæma skurðaðgerð. Í vissum tilvikum eru aðgerðir skipulagðar án undanfarandi lyfjameðferðar, einkum ef um er að ræða sjúkling sem fengið hefur þvagteppu og settur hefur verið upp þvagleggur sem ekki hefur tekist að losna við.

Algengasta skurðaðgerðin er svokölluð heflunaraðgerð (TURP) en sú aðgerð er framkvæmd í mænudeyfingu, speglað er gegnum þvagrás og kirtilvefur „heflaður“ eða „fræstur“ í burtu. Við aðgerðina er losað um stífluna og þvaglát verða greiðari í kjölfarið. Sjúklingur dvelur alla jafna á sjúkrahúsi næturlangt og útskrifast oft með inniliggjandi þvaglegg sem dreginn er að nokkrum dögum liðnum.

Ef kirtillinn er mjög stór getur þó verið erfitt að framkvæma TURP og í þeim tilvikum getur þurft að gera opna skurðaðgerð. Þá eru svokallaðar laser-aðgerðir (HOLEP) að ryðja sér til rúms hér á landi þar sem hægt að er fjarlægja mun stærri kirtla með speglunartækni en ella.

Sé sjúklingum ekki treyst í aðgerð vegna t.d. alvarlegra sjúkdóma eru þeir stundum hafðir með inniliggjandi þvaglegg til langframa eða að þeir beiti hreinni aftöppun til frambúðar.

Algengir sjúkdómar


Annað efni