Þvagleki

Þvagleki á sér stað þegar einstaklingurinn nær ekki að halda í sér þvagi. Vandamálið er algengt og veldur oft mikilli vanlíðan og óþægindum.

Þvagleki er gjarnan flokkaður í nokkrar mismunandi tegundir:

Áreynsluleki. Sjúklingur missir þvag við áreynslu, t.d. hósta eða hnerra, þegar hann hoppar eða hleypur. Við þetta eykst þrýstingur á blöðruna og þvag lekur út. Vandmálið verður þegar stuðningur vöðva og liðbanda grindarbotnins við blöðruna minnkar eða brestur en slíkt getur gerst t.d. í kjölfar barnsburðar eða aðgerða í grindarholi, t.d. brottnáms blöðruhálskirtils. Langvinn veikindi, ofþyngd og reykingar geta gert illt verra.

Bráðaþvagleki. Einstaklingurinn upplifir skyndilega, mikla þvaglátaþörf og nær ekki á salerni áður en blaðran tæmir sig. Þvaglát verða gjarnan tíðari en ella, bæði að degi en einnig að næturlagi þar sem þau trufla gjarna nætursvefn. Einfaldar orsakir, t.d. þvagfærasýkingar geta legið að baki en stundum er um að ræða flóknari og alvarlegri orsakir eins og t.d. taugasjúkdóma eða krabbamein.

Yfirflæðisþvagleki. Hér er á ferðinni blöðrutæmingarvandamál. Blaðran tæmist ekki sem skyldi, offyllist og „flæðir yfir bakka sína“. Orsakirnar eru einkum langvinn þvagteppa vegna blöðruhálskirtilsstækkunar eða blöðrulömunar/-slappleika vegna t.d. sykursýki eða lyfja. Þvagleki þessi verður oftar en ekki að næturlagi.

Þvagleki tengdur skertri almennri getu. Á sér stað þegar almenn líkamleg eða andleg geta einstaklingsins er skert. Þetta gerist við tímabundin eða langvinn veikindi, t.d. giktarsjúkdóma þar sem hreyfigeta sjúklingsins er skert og hann/hún nær ekki á salerni í tæka tíð.

Blandaður þvagleki. Þar sem tvær eða fleiri tegundir þvagleka blandast saman.

Rannsóknir og uppvinnsla

Læknir tekur ýtarlega sjúkrasögu og leggur jafnvel fyrir sjúklinga spurningalista sem miða að því að greina eðli og orsakir þvaglekans. Þá er einstalingurinn gjarnan látinn fylla út í svokallaða þvaglátaskrá þar sem skráð er þvaglosun (tímasetningar og þvagmagn), vökvainntaka – en einnig hvenær og undir hvaða kringumstæðum þvagleki á sér stað. Líkamsskoðun beinist einkum að þvagblöðrunni. Þvagflæði er mælt og þvagafgangur (restþvag) sömuleiðis til að meta blöðrutæmingu.

Sjúklingur er síðan oftast beðinn um að skila þvagprufu þar sem skoðað er hvort sýking sé til staðar eða hvort blóð eða sykur mælist í þvagi. Þá er oft framkvæmd blöðruspeglun þar sem speglunartæki er þrætt inn í þvagblöðruna og slímhúð hennar skoðuð.

Meðferð

Ýmiss ráð eru til fyrirbyggja þvagleka. Í því samhengi má minnast á megrun og grindarbotnsæfingar en einnig er fólki ráðlagt að forðast blöðruertandi drykki eða fæðu eins og t.d. kaffi, te, áfengi og súra drykki/fæðu.

Meðferðin veltur síðan á því hvers konar tegund þvagleka ræður ríkjum.

Ef um er að ræða hreinan áreynsluþvagleka eru grindarbotnsæfingar ráðlagðar í fyrstu. Dugi þær ekki koma skurðaðgerðir til greina, t.d. svokölluð blöðruupphenging.

Bráðaþvagleki er meðhöndlaður með blöðruþjálfun þar sem sjúklingurinn er beðinn um að reyna að halda í sér og hemja þvagblöðruna en lyf, svokölluð blöðrudempandi lyf, koma þar einnig til greina.

Þvagleki vegna skertrar almennrar getu miðar vitaskuld að því að bæta úr almennri færni sjúklings en bætt salernisaðstaða er sömuleiðis mikilvæg. Þá geta bleijur og jafnvel langvarandi þvagleggir í sumum tilvikum komið til greina.

Þegar um blandaðan þvagleka er að ræða þarf oft fjölþætta nálgun en gjarnan er byrjað á að ráðast á þann þátt sem ríkjandi er.

 

Algengir sjúkdómar


Annað efni