Stinningarvandamál

Þegar stinning getnaðarlims er skert þannig að það hamli mönnum í kynlífi er talað um risvandamál. Slík vandamál eru nokkuð algeng, sumar rannsóknir hafa m.a.s. bent til að u.þ.b. 50% af karlmönnum eldri en 40 ára glími við þau að einhverju leyti.

Orsakir slíkra vandamála geta verið ýmiss konar en er í grófum dráttum skipt í 4 flokka:

1. Vegna hormónatruflana. Skortur á karlhormóninu, testósteróni, getur leitt af sér minnkaða stinningu og getur lækningin því falist í því að sjúklingi sé bættur upp þessi skortur með testósterón-sprautum eða geli.

2. Af sálrænum toga. Þetta á einkum við ef sjúklingur er ungur, morgunris er með eðlilegum hætti og stinningin sveiflukennd. Oft er hræðsla við slælega frammistöðu hluti vandans. Kynlífsráðgjöf er meginuppistaða meðferðar en tímabundin notkun stinningarlyfja getur mögulega brotið upp vítahring og hjálpað til.

3. Vegna truflana í taugakerfi. Taugasjúkdómar eins og t.d. MS en einnig skurðaðgerðir í grindarholi sem hafa í för með sér skemmdir á taugum geta orsakað risvandamál. Við langvinna sykursýki geta úttaugar skemmst og valdið skertri stinningu og þá eiga mænuskaðaðir oftast við slík vandamál að etja.

4. Vegna truflana í æðakerfi. Hér er ýmist um að ræða skert blóðflæði til getnaðarlims t.d. vegna þrenginga í slagæðum (t.d. vegna æðakölkunar) eða svokallaðs bláæðaleka þar sem of hraður leki blóðs úr limnum hamlar stinningu.

Þá geta ýmiss konar lyf haft áhrif sem og óhófleg neysla áfengis eða tóbaks.

Uppvinnsla sjúklinga og rannsóknir

Miklu máli skiptir að fá greinargóða lýsingu á eðli vandmálsins. Er löngun til kynlífs til staðar? Hvernig er sambandið við makann? Er morgunstinning eðlileg? Hvernig er neysla áfengis eða annarra vímugjafa? Eða reykingar? Hvaða lyf notar viðkomandi?

Almenn líkamsskoðun er framkvæmd þar sem læknir skoðar sérstaklega eistu, blöðruhálskirtil og getnaðarlim sem og oftast eru teknar blóðprufur þar sem mælt er s-testósterón ásamt blóðsykri.

Meðferð

Almennar ráðleggingar til manna með stinningarvandamál geta falið í sér að taka á þeim áhættuþáttum sem til staðar eru – t.d. að hætta reykingum, grenna sig, minnka áfengisneyslu, með aukinni hreyfingu og bættum svefnvenjum og mataræði. Algengt er þó að sértækari meðferðarúrræðum sé einnig beitt.

Ef stinningarvandamál eru talin að rekja til testósterónskorts getur meðferð falist í því mönnum sé bættur upp sá skortur með testósteróngjöf. Er þá um að ræða að sjúklingur noti annað hvort testósteróngel sem smurt er daglega á húð eða að efninu sé sprautað í vöðva. Viðkomandi einstaklingur er síðan undir umsjá læknis sem stýrir gjöfinni í samræmi við blóðmælingar.

Stinningarlyf hafa gerbreytt allri meðferð risvandamála. Hér er um að ræða ýmist töflur eða lyf í sprautuformi sem eiga það sammerkt að auka blóðflæði til getnaðarlimsins og stuðla að bættri stinningu.

Algengast er að byrjað sé á töflum og hér á landi eru til 2 tegundir, annars vegar sildenafil sem virkar í u.þ.b. 10-12 tíma og hins vegar tadalafil (Cialis) sem virkar í allt að 36 tímum. Ekki má nota lyf þessi ásamt svokölluðum nítrötum (nitroglycerin, sprengitöflum) eða skyldum lyfjum né heldur ef einstaklingur glímir við alvarlegan hjartasjúkdóm.

Stinningarlyf í sprautuformi, svokölluð prostaglandíni (Caverject), er sprautað inn í getnaðarliminn þar sem það eykur blóðflæðið og framkallar stinningu. Er það gjarnan notað þegar stinningarlyf í töfluformi hafa ekki borið árangur.

Skurðaðgerðum vegna stinningarvandamála hefur með aukinni notkun stinningarlyfja fækkað mjög. Ef lyfjameðferð virkar ekki sem skyldi er stundum gripið til þess ráðs að  setja í getnaðarliminn svokölluð ígræði (prótesur) en þetta eru í raun hólkar sem hægt er að dæla í vatni til að ná fram fyllingu og þar með stinningu limsins.

 

Algengir sjúkdómar


Annað efni