Nýrnasteinar

Vandamál tengd nýrnasteinum eru algeng á Íslandi. Flestir nýrnasteinar myndast uppi í nýrunum sjálfum og geta borist þaðan niður í þvagleiðara. Einkennin geta verið sárir verkir í öðrum hvorum flankanum sem leiða oft aftur í bak eða niður í nára. Oft fylgir þessum verkjum ógleði og uppköst og stundum blóð í þvagi. Steinar sem liggja langt niðri í þvagleiðurum, nálægt þvagblöðrunni, geta auk verkja einnig valdið blöðrueinkennum, þ.e. tíðum og bráðum þvaglátum. Í vissum tilvikum eru nýrnasteinar einkennalausir og uppgötvast þá fyrir tilviljun.

Til að greina steina innan þvagvega þarf að framkvæma myndgreiningarrannsókn. Algengasta rannsóknin nú til dags er svokölluð tölvusneiðmynd (CT) af nýrum þar sem nær allir nýrnasteinar sjást.

Líkaminn losnar við flesta nýrnasteina af sjálfsdáðum en sumir þeirra festast þó og þarfnast sérstakrar meðferðar. Steinbrjóturinn Mjölnir er staðsettur á Landspítalanum og í honum er höggbylgjum miðað og skotið á steinana sem molna við höggin niður í smærri brot og skolast síðan út úr líkamanum. Ef meðferð í steinbrjótnum er ómöguleg frá byrjun eða árangurslaus er gripið til annnarra aðgerða. Séu steinar fastir í þvagleiðurum er reynt með speglunartækni að fjarlægja þá.

Greinist sjúklingur með nýrnastein er sá hinn sami í aukinni áhættu á því að það endurtaki sig. Í vissum tilvikum eru til staðar efnaskiptatruflanir sem hægt er að greina með viðeigandi rannsóknum og meðhöndla. Allir sjúklingar sem greinast með nýrnastein ættu því að hitta þvagfæraskurðlækni til viðtals og mögulegrar uppvinnslu á þessu vandamáli.

Algengir sjúkdómar


Annað efni