Krabbamein í eistum

Krabbamein í eistum er algengasta krabbameinið hjá karlmönnum á aldrinum 25-45 ára hér á landi. Þrátt fyrir það er krabbamein í eistum sjaldgæft, eða um ca 1% allra illkynja æxla hjá karlmönnum.

Aukin áhætta er fyrir hendi hjá þeim mönnum þar sem eistað hefur ekki gengið niður í punginn með eðlilegum hætti í fósturlífi. Fjölskyldusaga um eistnakrabbamein hjá nákomnum ættingja (föður eða bróður) er einnig áhættuþáttur sem og meðfæddar vanskapanir á kynfærum.

Eistnakrabbamein veldur oftast engum sérstökum einkennum. Algengast er að meinið uppgötvist við það að menn þreifi hnút eða fyrirferð í öðru eistanu. Þó geta sjúklingar haft verki eða þyngsli/seiðing í eista.

Vakni grunur hjá mönnum um krabbamein í eista ber að leita læknis. Læknisskoðun er þá framkvæmd með þreifingu og síðan ómskoðun af eistanu. Staðfesti ómskoðunin grun um að eistnakrabbamein sé til staðar er sjúklingurinn þar að auki sendur í blóðprufur þar sem mældir eru svokallaðir æxlisvísar (alfafetoprótín, AFP og beta-HCG) auk þess sem framkvæmd er tölvusneiðmyndataka af lungum og kvið til að skima eftir mögulegum meinvörpum.

Meðferð á eistnakrabbameini felur alltaf í sér að fjarlægja eistað. Gerður er skurður í nára og í gegnum hann er hið sjúka eista fjarlægt. Í sömu aðgerð er hægt að setja gervieista óski menn eftir því. Ef meinið er staðbundið og séu engir sérstakir áhættuþættir til staðar dugar þessi skurðaðgerð oft ein og sér til lækningar. Sé meinið hins vegar byrjað að dreifa sér um líkamann með meinvörpum eða ef ákveðnir áhættuþættir eru til staðar þarf þar að auki að gefa krabbameinslyfjameðferð. Sú krabbameinslyfjameðferð getur mögulega valdið ófrjósemi og undir þeim kringumstæðum því verið skynsamlegt að huga að því að frysta sæði áður en slík meðferð hefst. Undir öllum kringumstæðum þarf sjúklingur sem greinst hefur með eistnakrabbamein að vera í eftirliti hjá þvagfæralækni eða krabbameinslækni í a.m.k. 5 ár.

Horfur sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein í eista eru nú til dags góðar. Gerbylting varð í meðferð þessara einstaklinga þegar farið var að nota krabbameinslyfið cisplatin og í dag má telja að yfir 90% þessara sjúklinga læknist alveg af sjúkdómnum.

Algengir sjúkdómar


Annað efni