Ófrjósemisaðgerðir karla

Við ófrjósemisaðgerðir hjá körlum eru gerðir litlir skurðir á pung, sáðrásin tekin í sundur beggja vegna og hnýtt eða brennt fyrir endana. Við þetta geta sáðfrumurnar ekki borist frá eistunum, þar sem þær myndast, inn í sáðvökvann sem inniheldur engar slíkar frumur eftir aðgerðina og er því “steríll”.

Aðgerðin er hugsuð sem getnaðarvörn hjá mönnum sem ekki vilja eignast fleiri börn og er vitaskuld ákvörðun sem ber að taka að vandlega íhuguðu máli.

Aðgerðin er gerð annað hvort í staðdeyfingu eða stuttri svæfingu og tekur um það bil 20 mínútur í framkvæmd. Strax eftir aðgerðina er mönnum ráðlagt að fara heim í hvíld og rólegheit en geta byrjað að vinna skrifstofuvinnu daginn eftir. Ef um líkamlega þunga vinnu er að ræða er ráðlegast að bíða í 3-4 daga.

Vanalega eru menn með einhverja verki í pungnum í 5-7 daga eftir aðgerðina. Menn geta farið í sturtu daginn eftir en ættu að bíða með sund o.þ.h. þangað til sár eru gróin.

Þremur mánuðum eftir aðgerðina skila menn sæðisprufu til greiningar og er það gert til að athuga hvort sæðisvökvinn sé ekki örugglega án sæðisfrumna. Skurðlæknirinn hefur þá samband við sjúklinginn og gefur grænt ljós ef allt hefur heppnast vel. Fram að þeim tíma geta menn hins vegar ekki gert ráð fyrir að vera orðnir ófrjóir og verða því að nota getnaðarvarnir.

Helstu aðgerðir


Annað efni