Heflun á blöðruhálskirtli (TURP)

Aðgerðin er framkvæmd þegaðar blöðruhálskirtill er stækkaður og veldur erfiðleikum við þvaglát, t.d. þvagtregðu, tíðum og bráðum þvaglátum eða þvagstoppi. Oft hafa sjúklingar verið meðhöndlaðir með lyfjum sem lina umrædd einkenni.

Aðgerðin er framkvæmd á sjúkrahúsi og oftast í svokallaðri mænudeyfingu. Þá sprautar svæfingarlæknir deyfilyfjablöndu inn í mænugöngin og dofnar þá neðri líkamshelmingurinn og sjúklingurinn finnur ekki til á meðan aðgerðin stendur yfir.

Skurðlæknirinn speglar inn í blöðruna með sérstökum speglunaráhöldum og “heflar” síðan eða “skrapar” síðan burtu vefjaspæni frá innra byrði blöðruhálskirtilsins og er vefjaspænirinn sendur í vefjagreiningu. Aðgerðin tekur alla jafna 1 klst og strax í kjölfar aðgerðarinnar fær sjúklingur þvaglegg sem oftast er hafður fram á næsta morgun en stundum lengur ef þörf er talin á.

Bráðir fylgikvillar aðgerðarinnar eru blæðingar frá þvagrás og sýkingar. Þá getur tekið nokkrar vikur fyrir þvaglát að komast í eðlileg horf eftir aðgerð og eru þvagleki, tíð og bráð þvaglát og sviði við þvaglát algeng einkenni. Til lengri tíma er algengt að sáðlát brenglist. Sáðvökvinn fer þá upp í blöðruna við sáðlát og í kjölfarið pissa menn því út og þvag getur því orðið gruggugt (retrograde ejaculation). Aðrir langtíma fylgikvillar eins og áreynsluþvagleki og stinningarvandamál þekkjast en eru sjaldgæf.

Í kjölfar útskriftar af sjúkrahúsi hittir skurðlæknir sjúklinginn eftir u.þ.b. 4-6 vikur. Þá er farið yfir ganginn eftir aðgerð og sjúklingi greint frá niðurstöðu vefjagreiningar.

Helstu aðgerðir


Annað efni