Vatnshaull og sæðishaull í pung

Vatnshaull (hydrocele) og sæðishaull (spermatocele) í pung verður þegar vökvi safnast saman í ákveðnum holrúmum innan pungsins sem alla jafna eru tóm og samfallin. Oftast er engin góð skýring á því af hverju þessi holrúm byrja að fyllast af vökva en þetta getur þó gerst í kjölfar sýkingar. Einkennin eru þau að pungurinn stækkar, oftast öðrum megin eða að menn þreifi þar mjúkar fyrirferðir. Stundum getur þrýstingsverkur verið til staðar, einkum ef vökvasöfnunin er mikil.

Þvagfæraskurðlæknir framkvæmir hefðbundna skoðun með því að þreifa á pungnum og pantar í kjölfarið oftast ómskoðun sem staðfestir þá greininguna.

Bæði vatnshaull og sæðishaull eru góðkynja fyrirbæri og þarfnast ekki meðferðar nema sjúklingur hafi óþægindi af eða finnist þetta til lýta. Er þá gerð skurðaðgerð þar sem gerður er skurður á pung, vökvi tæmdur út og búið þannig um hnútana að vökvi geti ekki haldið áfram að safnast saman í kjölfarið. Slík aðgerð tekur um 30 mínútur og er oftast framkvæmd í stuttri svæfingu. Sjúklingur fer heim að lokinni aðgerð og hugsanlegt er að læknir skilji eftir svokallaða drenslöngu inni í pungnum sem síðan er fjarlægð 1-3 dögum síðar. Strax eftir aðgerð er mönnum ráðlagt að fara heim í rólegheit og forðast mikla líkamlega áreynslu næstu vikuna. Oftast eru menn með verki, bólgu og óþægindi í u.þ.b. 10-14 daga eftir aðgerðina og geta þurft að taka verkjalyf.

Algengir sjúkdómar


Annað efni