Krabbamein í þvagvegum (þvagblöðru, nýrnaskjóðu, þvagleiðurum og þvagrás)
Krabbamein í þvagvegum eru um 5% allra illkynja meina sem greinast á Íslandi. Oftast er um að ræða svokölluð þvagvegaþekjuæxli (transitional cell carcinoma) en fleiri vefjagerðir þekkjast einnig (kirtilfrumukrabbamein og flöguþekjukrabbamein).
Þekktir áhættuþættir eru tóbaksreykingar og einnig vinna með ákveðin kemisk efni, t.d. ákveðin litarefni. Viss sníkjudýr (Schistosoma hematobium) eru einnig þekkt fyrir að auka áhættu á flöguþekjukrabbameini innan þvagvega þar sem þau eru landlæg (t.d. Egyptalandi) en sýkingar af þeirra völdum eru sem betur fer afar fátíðar hjá Íslendingum.
Einkennin eru oftast sársaukalaus blóðmiga, þ.e.a.s sjúklingurinn pissar blóði. Önnur einkenni geta þó verið ráðandi, eins og t.d. tíð og bráð þvaglát eða sviði við þvaglát. Þá geta krabbamein í þvagleiðara eða nýrnaskjóðu valdið verkjum og óþægindum sem minnt geta á verki af völdum nýrnasteina.
Vakni grunur um krabbamein í þvagblöðru er oftast framkvæmd svokölluð blöðruspeglun þar sem þvagfæraskurðlæknir þræðir speglunartæki inn í þvagrás í staðdeyfingu. Aðgerðin tekur nokkrar mínútur í framkvæmd og fylgja henni einungis minni háttar óþægindi.
Yfirleitt skipuleggur viðkomandi læknir einnig einhvers konar myndgreiningarrannsókn, oftast svokallaða tölvusneiðmynd af þvagvegum.
Meðferð veltur mjög á staðsetningu meinsins. Ef um er að ræða krabbamein í þvagblöðru er gerð speglunaraðgerð þar sem krabbameinsæxlið er heflað burtu og vefjaspænirinn síðan sendur í vefjagreiningu. Framhaldið veltur síðan á niðurstöðu smásjárskoðunarinnar (vefjagreiningarinnar). Sitji meinið einungis í ysta lagi slímhúðarinnar nægir oft áðurnefnd heflunaraðgerð en sjúklingur þarf þá að gangast undir reglubundið eftirlit hjá þvagfæralækni. Sé krabbameinið á hinn bóginn vaxið niður í vöðvalag þvagblöðrunnar er sjúkdómurinn alvarlegri og þarf sjúklingur þá oftast að ganga undir stærri skurðaðgerð þar sem framkvæmt er brottnám á þvagblöðru og svokölluð þvaghjáveita.
Leiði myndgreiningarrannsóknir í ljós fjarmeinvörp í öðrum líffærum (t.d. lungum) er sjúkdómurinn ekki lengur læknanlegur en mögulega hægt að halda í skefjum með krabbameinslyfjameðferð.
Krabbamein í nýrnaskjóðu, þvagleiðurum eða þvagrás eru sjaldgæfari en þvagblöðrumein. Meðferð þeirra er oftast skurðaðgerð.
Horfur sjúklinga með krabbamein innan þvagvega velta mjög á staðsetningu og tegund krabbameinsins, hversu langt það er gengið og hvort það finnist fjarmeinvörp í öðrum líffærum.