Forhúðarvandamál
Forhúðarþrengsli (phimosis) valda því að erfitt er að draga forhúðina tilbaka yfir kónginn og getur valdið óþægindum og sársauka, einkum við stinningu og truflað kynlíf. Oftast er um að ræða hringlaga þrengingu yst á forhúðinni en einnig getur verið um að ræða að strengurinn svokallaði (frenulum) sé of stuttur.
Í vissum tilvikum nægir að meðhöndla með sterakremi en annars er lausnin að gera skurðaðgerð. Sú aðgerð felur í sér að forhúðin er fjarlægð, annað hvort öll eða að hluta til (umskurður) eða að gerð er svokölluð forhúðarplastík þar sem klippt er upp í forhúðarþrengslin og húð síðan saumuð saman án þess að nokkur vefur sé fjarlægður. Í þeim tilvikum þegar strengurinn er of stuttur er klippt á hann í lítilli skurðaðgerð.