Endurteknar blöðrubólgur

Síendurteknar bakteríusýkingar í þvagblöðru er nokkuð algengt vandamál hjá konum. Einkenni blöðrubólgu eru óþægindi við þvaglát, t.d. sviði í þvagrás en einnig tíð og bráð þvaglát. Þá getur þvag verið illa lyktandi og gruggugt. Þvagfærasýking er greind með þvagprufu. Sjúklingur verður sér úti um þvagprufuglas í apóteki og skilar svokölluðu miðbunuþvagi á rannsóknarstofu eftir að læknir hefur lagt þar inn beiðni. Gert er strimilpróf, sýnið skoðað í smásjá og síðan ræktað ef þurfa þykir. Vaxi bakteríur í sýninu er svo gert svokallað næmispróf þar sem athugað er hvaða sýklalyf virki.

 

Áhættuþættir

Kynlíf eykur líkurnar á þvagfærasýkingum. Þvagrás kvenna er stutt og við samfarir geta bakteríur borist frá leggöngum og spöng – þar sem þær eru í ríkum mæli – inn í þvagblöðruna og valdið þar sýkingum. Notkun hettu og sæðisdrepandi krema getur breytt örveruflóru legganganna þannig að illskeyttari bakteríur vaxi þar og dafni og það sama getur gerst eftir tíðahvörf.

 

Rannsóknir og uppvinnsla

Yfirleitt er ekki þörf á ýtarlegum rannsóknum hjá þeim konum sem þjást af þessu vandamáli. Ef nýleg þvagprufa liggur ekki fyrir er slík rannsókn fengin og að auki er gengið úr skugga um að sjúklingurinn tæmi blöðru á fullnægjandi hátt með svokallaðri blöðruómskoðun þar sem þvagafgangur (restþvag) er mældur. Undir vissum kringumstæðum getur einnig verið ástæða til svokallaðrar blöðruspeglunar og jafnvel myndgreiningarannsókna af nýrum (ómskoðun eða tölvusneiðmynd).

 

Meðferð

Besta meðferðin felst í því að fyrirbyggja sýkingar. Þetta getur falist í almennum ráðleggingum – t.d. um að tæma blöðru alltaf eftir samfarir – eða að notuð séu lyf til að minnka líkurnar á sýkingum. Þar kemur til greina að konur taki 1 sýklalyfjatöflu í tengslum við kynlíf eða fari á lengri, fyrirbyggjandi sýklalyfjakúra (2-3 mánuðir) með 1 töflu á dag. Hjá konum sem komnar eru yfir tíðahvörf ætti að íhuga staðbundna estrógenmeðferð. Þá getur það verið góður valkostur að eiga pakka af sýklalyfjum uppi í skáp sem hægt er að grípa til ef sjúklingur finnur fyrir kunnuglegum einkennum blöðrubólgu. Að hefja sýklalyfjameðferð snemma getur hjálpað mikið, stytt sýkingartímann og minnkað óþægindin.

 

Á að skila þvagprufu eftir að sýklalyfjakúr lýkur?

Yfirleitt er ekki þörf á því. Ef einkennin ganga til baka og sjúklingur verður frískur þarf þess ekki.

 

 

Algengir sjúkdómar


Annað efni